Bandarísk yfirvöld hafa ákært fimm stjórnendur samtakanna Bitclub Network, fyrir 100 milljarða króna Bitcoin Ponzi svindl, en samtökin hafa fullyrt að höfuðstöðvar þeirra séu í Reykjavík.

Heimsóknir í gagnaver á Íslandi virðast hafa verið stór þáttur í að sannfæra grunlausa einstaklinga um ágæti samtakanna, sem eru sögð frá upphafi hafa gengið út á að svíkja fé út úr fólki.

Ákærur voru gefnar út á hendur mönnunum í desember eftir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI og Ríkisskattstofu Bandaríkjanna, IRS. Samkvæmt ákærunum gekk svikamylla Bitclub út á að bjóða fólki að verða hluti af pýramídasölukerfi (e. multi level marketing) tengt greftri eftir rafmyntum. Fimmmenningarnir eru sagðir hafa fengið fjárfesta til að leggja þeim til að minnsta kosti 722 milljónir dollara, jafnvirði um 100 milljarða íslenskra króna á árunum 2014 til 2019.

Handtekinn á flótta í Indónesíu

Í desember voru þrír hinna ákærðu handteknir í Bandaríkjunum en tveggja var enn leitað. Þeir voru báðir handteknir í sumar. Þar á meðal var ætlaður forstjóri Bitclub, Bandaríkjamaðurinn Russ Albert Medlin, handtekinn í Indónesíu eftir að þrjár stúlkur undir lögaldri sökuðu hann um að bjóða þeim greiðslu í skiptum fyrir kynlíf. Eftir handtökuna komust indónesísk lögregluyfirvöld á snoðir um að hann væri eftirlýstur í Bandaríkjunum. Fyrir var Medlin á opinberri skrá Nevada ríkis í Bandaríkjunum sem dæmdur kynferðisafbrotamaður. Hann kann að eiga yfir höfði sér 15 ára fangelsi í Indónesíu sem og hættu á að verða framseldur til Bandaríkjanna vegna fjársvikamáls Bitclub.

Buðu fjölda fólks til Íslands

FBI komst yfir samskipti stofnenda samtakanna þar sem fram kemur að markmiðið frá stofnun þeirra hafi verið að herja á „heimska“ fjárfesta og „sauði“ og að byggja upp viðskiptalíkan á grunni „hálfvita“

Bitclub virðist á undanförnum árum hafa skipulagt fjölda heimsókna með hópa Bitclub meðlima til Íslands og þannig ætlað að sýna fram á að samtökin væru raunverulega að grafa eftir rafmyntum. Í myndbandi samtakanna frá einni heimsóknanna segjast þau hafa fyllt fjórar stórar rútur af fólki víða að úr heiminum, sem sést ferðast frá Hilton Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut og í gagnaver Verne Global að Ásbrú í Reykjanesbæ, með viðkomu í Bláa lóninu.

Í öðru myndbandi segjast Abel og Medlin vera í tölvusal í húsakynnum Verne Global. Þar fullyrðir Medlin að samtökin muni senn hafa framleiðslugetu til að grafa eftir rafmyntum fyrir 10 til 20 milljónir dollara á mánuði og verði orðnir stærstu framleiðendur á Bitcoin í heiminum á árinu 2018. Lítill fótur var fyrir fullyrðingunum samkvæmt ákærum gegn mönnunum.

Verne aldrei í viðskiptum við Bitclub

Í svari Verne Global við fyrirspurn Viðskiptablaðsins er lögð áhersla á að Verne Global hafi aldrei átt í viðskiptum við Bitclub.

Þau telji að Bitclub hafi tengst fyrrverandi viðskiptavini Verne Global, sem hafi leigt rými í gagnaverinu til að hýsa tölvubúnað, en geri það ekki lengur. Allur tölvubúnaður innan gagnaversins sé í eigu viðskiptavina. Verne Global hafi enga yfirsýn yfir í hvað sá búnaður sé nýttur og hafi hvorki möguleika á að fylgjast með því, né sé skuldbundið til þess. Verne hafi því ekki upplýsingar um hvort raunverulegur rafmyntagröftur hafi átt sér stað hjá Bitclub í gagnaverinu eða þá í hve miklum mæli hann kann að hafa verið.

Þá kemur enn fremur fram að gröftur eftir rafmyntum hafi alla tíð verið lítill hluti af starfsemi viðskiptavina Verne Global. Meirihluti viðskiptavina gagnaversins notist við ofurtölvur sem nýtist til að mynda á sviði gervigreindar, vísindarannsókna, verkfræði, og fjármálaþjónustu.

Kynningarmyndband Bitclub frá Íslandsheimsókn árið 2017:


Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .