Greining Glitnis telur i Morgunkorni sínu líklegt að áhrif gengislækkunarinnar í mars sé að mestu komin fram í vöruverði hér á landi.

Verð á innfluttum vörum hækkaði um 6,4% milli mánaða og munar þar mestu um verð á nýjum bílum sem hækkuðu um 11%. Innfluttar matvörur hækkuðu um 9,1% og eldsneyti um 5,2%.

„Þó eru vöruflokkar sem gætu enn átt eftir að hækka. Áhrif hrávöruverðshækkunar vega hér einnig þungt og enn má búast við hækkun á slíkum matvörum á næstunni. Aðrar innfluttar vörur en hér hafa verið taldar upp hækkuðu um 4,7% milli mánaða og er líklegt að frekari hækkun á þeim lið verði í næsta mánuði,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir Greining Glitnis jafnframt að uppsafnaður innlendur kostnaðarþrýstingur, meðal annars vegna mikillar launahækkunar á síðasta ári, brýst fram nú og vegur þungt.

„Til að mynda hækkar verð á þjónustu á almennum markaði um 1,8% milli mánaða og fara verður mörg ár aftur í tímann til að sjá slíka hækkun milli mánaða á þessum undirlið vísitölunnar. Árshækkun hans nemur 7,6% og fara verður aftur til ársins 2002 til að sjá meiri árshækkun en það,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir Greining Glitnis að áhrif af gengislækkun krónunnar eru að koma mun fyrr fram í verðlagi nú en áður við svipaðar aðstæður „og er það í raun ekki alslæmt,“ segir í Morgunkorni.

„Það leiðir einfaldlega til þess að áhrifin eru fyrr að ganga yfir og því ætti að vera styttra í að verðbólga verði skapleg á ný.“