Stjórnvöld  hér á landinu ganga erindi evrópskra matvælaframleiðenda sem gerir innflutning á vörum frá Bandaríkjum erfiðari. Þetta sagði Jón Gerald Sullenberger, eigandi matvöruverslunarinnar Kosts, á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í morgun. Hann sagði að ráðamenn í Brussel hefði ekki tekist að neyða Íslendinga til að borða óætt Cocoa Puffs og vísaði þá í nýju gerðina sem leysti þá gömlu af hólmi. Nýrri útgáfan var þá flutt frá Evrópu en ekki Bandaríkjunum og voru margir Cocoa Puffs neytendur ósáttir.

Á fundinum tók Jón Gerald einnig kryddið Season All sem dæmi um vöru sem væri bannaða hér á landi. Varan innihéldi litarefnið E-160 sem væri ekki leyfilegt en hinsvegar væri hægt að kaupa brauðrasp með þessu sama litarefni.

„Það má kaupa kjöt og fisk í raspi með litarefninu en það má ekki krydda matinn sjálfur með því,“ sagði Jón. Hann gagnrýndi Matvælastofnun harðlega á fundinum fyrir að taka geðþóttaákvarðanir og fyrir seinagang í starfi. Sagði hann slíkt eingöngu koma niður á verði til neytenda og valda tekjutapi hjá fyrirtækjum.