Sem stendur liggur fyrir Alþingi frumvarp um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó. Upphaflega var stefnt að því að gjaldið yrði reiknað af leyfilegu framleiðslumagni miðað við hámark heimilaðs lífmassa fisks í útgefnum rekstrarleyfum. Með öðrum orðum, þá átti að leggja gjaldið á óháð því hvort framleiðsla ætti sér stað hjá rekstrarleyfishafa eður ei. Stefnt var að því að lögin tækju gildi næstu áramót og bæri að greiða 10 krónur fyrir hvert kíló af frjóum laxi til ársins 2022. Frá árinu 2023 myndi gjaldið hækka um helming. Áætlað var að gjaldið myndi skila 625 milljónum í ríkissjóð fyrsta árið en tæplega 1,1 milljarði árlega frá og með 2023.

Í samráðsferli frumvarpsins var þessi framsetning harðlega gagnrýnd og þá sérstaklega sú fyrirætlan að ætla að leggja gjaldið á óháð því hvort framleiðsla ætti sér stað í kvíunum eður ei. Horfið hafði verið frá þeirri útfærslu er frumvarpið rataði til þingsins. Nú er stefnt að því að gjaldið fyrir hvert framleitt kíló taki mið af alþjóðlegu markaðsverði á Atlantshafslagi. Þá er nú miðað við að innleiða gjaldið í þrepum þannig að árið 2020 beri fyrirtækjum að greiða 1/7 þess. Upphæð gjaldsins hækkar síðan um 1/7 ár hvert þannig að það verði að fullu innleitt árið 2026.

Í frumvarpsdrögunum sem og frumvarpinu sjálfu er að finna fjárhagslegan hvata fyrir fyrirtæki til að reyna að beina framleiðslu sinni frekar í áttina að ófrjóum fiski. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir því að gjald fyrir ófrjóan fisk verði helmingi lægra en fyrir hina frjóu. Í frumvarpi því sem rataði fyrir þingið var lagt til að gjaldtöku vegna geldlaxa yrði slegið á frest til ársins 2026. Milli umræðna bætti atvinnuveganefnd þingsins um betur og fallist þingið á breytingatillögu nefndarinnar mun ekkert gjald vera lagt á ófrjóan fisk fyrr en árið 2029. Er með því stefnt að umhverfisvænni framleiðslu en ella.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), en fiskeldisfyrirtæki eru með aðild að þeim, hafa bent á að þau telji mögulegt að grundvöllur gjaldsins gæti verið á skjön við stjórnarskrá. Hæpið sé að telja sjókvíaeldi til takmarkaðrar auðlindar og því ekki um auðlindarentu, á borð við veiðigjaldið, að ræða. Nú þegar greiði fyrirtækin í umhverfissjóð sjókvíaeldis og að gjaldtakan nú byggi á sömu forsendum, það er gjaldið er lagt á á grundvelli umhverfisáhrifa. Varhugavert sé að frumvarpið verði að lögum í ljósi banni stjórnarskrárinnar við tvísköttun.

Einnig er varað við því að leggja frekari gjöld á greinina. Nú þegar sé framleiðslukostnaður fiskeldisfyrirtækja hærri en í samkeppnisríkjum okkar og myndi það skekkja stöðuna enn frekar. Greinin sé enn í uppbyggingarfasa og bent á að uppsafnað tap hennar (EBT), vegna reksturs áranna 2013-17, sé 5,4 milljarðar króna. Viðbúið sé að fjárfesting í búnaði og seiðum, fyrir hver 10 þúsund tonn til viðbótar, nemi ekki minna en 6-8 milljörðum króna.

Vilja ekki gjald á geldlax

Umræðan um áhrif fiskeldis í sjókvíum hefur verið hávær í gegnum tíðina bæði af hálfu fiskeldisfyrirtækja svo og landeigenda og veiðiréttarhafa. Nær undantekningalaust hafa útgefin rekstrar- og starfsleyfi í greininni verið kærð til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál (ÚUA). Síðastliðið haust felldi ÚUA úr gildi starfs- og rekstrarleyfi Arnarlax og Fjarðalax vegna galla við framkvæmd umhverfismats. Sú niðurstaða var „plástruð“ af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með útgáfu bráðabirgðaleyfa svo reksturinn gæti haldið áfram.

Líkt og SFS hefur Landssambands veiðifélaga (LV) gert athugasemdir við gjaldtökufrumvarpið og er þá á það bent að gjaldið sé of lágt. Af viðskiptum með hluti í laxeldisfélögum má ráða að hin norsku fyrirtæki meti leyfin til hárra fjárhæða. Áðurnefnd kaup MNH á hlut í Fiskeldi Austfjarða beri þess glöggt merki enda ráðist endanlegt kaupverð af stærð rekstarleyfa sem tekst að afla. Þá er sett út á að gjaldtakan muni miðast við framleiðslu en ekki útgefin leyfi.

„Sú breyting að miða gjaldtöku ekki við útgefin rekstrarleyfi hvetur fyrirtækin til að afla sér leyfi fyrir sem mestu framleiðslumagni enda kostar ekkert að halda yfirráðum yfir eldissvæðum og búa með þeim hætti til óefnisleg verðmæti sem síðan má selja með beinum eða óbeinum hætti,“ segir í umsögninni. Þá leggst LV gegn því að gjald sé lagt á geldlax. Rétt sé að hækka gjaldið umtalsvert en að umhverfisvæn framleiðsla verði undanþegin gjaldinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .