Stjórnvöld í Brussel hafa í dag verið gagnrýnd fyrir að hverfa frá stefnu Evrópusambandsins um að skattgreiðendur ættu ekki að bera kostnað af því að bjarga bönkum. Gagnrýnin kemur í kjölfar b jörgunaraðgerðar ríkisstjórnar Ítalíu gagnvart tveimur bönkum sem gæti á endanum kostað ítalska skattgreiðendur 17 milljarða evra. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Ákvörðunin hefur vakið töluverða reiði meðal þingmanna Evrópuþingsins og annara ráðamanna í Evrópu. Árið 2014 samþykkti Evrópuþingið reglugerð sem átti að koma í veg fyrir að bönkum yrði bjargað á kostnað skattgreiðenda. Með reglugerðinni áttu einkafjárfestar að bera allan halla af því að banki færi í gjaldþrot áður en til fjárveitingar frá stjórnvöldum kæmi.

Með björgunaraðgerðinni er eigendum forgangskrafna bankana tveggja hlíft frá tapi á meðan eigendur víkjandi skuldabréfa og hlutabréf bankanna munu tapa fjármunum sínum.

„Loforðið um að skattgreiðendur muni ekki borga fyrir björgun fallandi banka hefur verið brotið til framtíðar," sagði Þjóðverjinn Markus Ferber, varaformaður efnahagsnefndar Evrópuþingsins. Þá segist Evrópuþingmaðurinn Philippe Lamberts vera reiður vegna ákvörðunarinnar um ríkisaðstoð við ítölsku bankanna og að eigendum forgangskrafna sé hlíft.

Atburðarásin sem leiddi til björgunaraðgerðarinnar hófst á föstudag þegar evrópski seðlabankinn gaf það út að bankarnir tveir sem um ræðir færu á barmi gjaldþrots. Í kjölfarið var stjórnvöldum í Róm gefin heimild fyrir því að hverfa frá reglum Evrópusambandsins. Voru rök ítalskra stjórnvalda þau að ef bönkunum hefði verið leyft að fara í þrot myndi það hafa slæmar afleiðingar á efnahagslíf í Vento héraðinu þar sem bankarnir starfa. Varð það til þess að Evrópski skilasjóðurinn sem fer með málefni banka sem eru í vanda, tók þá ákvörðun að aðgerðirnar myndu ekki stangast á við reglur Evrópusambandsins.