Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla varð fyrir nokkru áfalli á föstudaginn, daginn áður en fyrsta afhending á Model S átti að eiga sér stað. Þá braut óánægður kaupandi Tesla Model S framrúðuna á bíl sem honum hafði verið afhent nokkrum mínutum áður með skiptilykli. Hópur blaðamanna fylgdist með. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Yu Xinquan hafði verið lofuð afhending á bíl sínum í apríl. Eftir talsverðar tafir á framleiðslu á bílnum enduðu kínversk tollyfirvöld með að leggja hald á bílinn vegna misræmis á framleiðslunúmeri á tollpappírum og bílnum sjálfum.

Tesla bauð þá Xinquan, sem greiddi fjórðung af 173 þúsund Bandaríkjadala kaupverðinu í október, sýningarbíl til afnota þangað til hann fengi nýjan bíl. Honum til lítillar ánægju.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kínverskir bílakaupendur sýna óánægju sína í verki. Á meðan bílasýningin í Qingdao stóð yfir árið 2011 var Lamborghini bíll eyðilagður og árið 2013 lét eigandi Maserati Quattroporte eyðileggja 50 milljón króna bíl sinn fyrir utan sömu sýningu.