*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 6. júlí 2018 09:06

Óánægja með ákvörðun Hafró

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, kveðst mjög óánægður með þá ákvörðun Hafró að endurskoða ekki áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunnar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Ritstjórn
Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva.
Haraldur Guðjónsson

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, kveðst mjög óánægður með þá ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar að endurskoða ekki áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunnar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Einar segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðunin sé mikið áfall fyrir byggðir landsins, einkum á Vest- og Austfjörðum, en íbúar þar höfðu gert sér vonir um atvinnuuppbyggingu með fiskeldi. Nú sé uppi fullkomið óvissuástand.

„Þetta kom okkur auðvitað í opna skjöldu. Við höfðum unnið í góðri trú með Hafrannsóknastofnun í hér um bil eitt ár þar sem settar voru fram hugmyndir sem gætu leitt til þess að endurskoða áhættumatið þannig að það gæti leitt til aukinna framleiðsluheimilda,“ er haft eftir Einari í Morgunblaðinu. Hann telur að allar efnilegar forsendur hafi verið fyrir hendi til endurskoðunar. „Þetta er mikið áfall fyrir atvinnugreinina og fyrirtækin, en ekki síður fyrir þær byggðir sem höfðu bundið vonir við endurskoðun áhættumatsins, vegna þess að fiskeldismenn höfðu lagt til nýjar eldisaðferðir til að draga úr hættu á erfðablöndun,“ hefur Morgunblaðið jafnframt eftir honum.

Hafró telur að í lögum sé ekki heimild til að draga úr eldi sem leyft hafi verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi ekki vera of mikið. Því sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu.

Einar er ósammála þeirri röksemdarfærslu. Hann vill meina að áhættumatið hafi verið unnið án þess að nein bein lagaheimild hafi verið fyrir þeirri matsgerð enda hafi það í dag þá stöðu að vera álit stofnunarinnar, en ekki lögbundið plagg að neinu leyti.