Óánægju hefur gætt vegna endurgreiðslu frá Íslandsbanka þar sem vaxtabætur koma til með að skerðast sem endurgreiðslunni nemur, en bankinn endurgreiddi fyrr á árinu 20.000 skilvísum viðskiptavinum sínum 30% vaxta af húsnæðis- og skuldabréfalánum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist líta þessi mál alvarlegum augum í samtali við Morgunblaðið. „Ég mun skoða þetta í samvinnu við ríkisskattstjóra. Í ljósi þess að vaxtabætur eru ætlaðar til að bæta fólki upp vaxtakostnað er ekki óeðlilegt að embættið hafi litið svo á að með þessum greiðslum bankans væri kostnaðurinn sem bæturnar grundvallast á ekki lengur fyrir hendi. Ætlun bankans var aftur á móti að umbuna viðskiptavinum sínum fyrir skilvísi en í ákveðnum tilvikum ná greiðslurnar ekki því markmiði. Við þurfum að skoða hvernig er eðlilegt að höndla slíka umbun, án þess að missa sjónar á að þessar greiðslur hljóta að reiknast fólki til tekna með einhverjum hætti,“ segir Bjarni.

„Þetta sýnir að það var enginn raunverulegur vilji til þess að slá skjaldborg um heimilin,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, einn hinna skilvísu viðskiptavina Íslandsbanka í samtali við Morgunblaðið, en hún gagnrýnir fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki á sínum tíma gert ráðstafanir til þess að endurgreiðsla þessi kæmi lántakendum til góða en ekki ríkissjóði.

„Það er fráleitt að Íslandsbanki sé að létta ríkissjóði útgjöldin og getur ekki hafa verið markmið bankans,“ segir Gréta. „Bankinn sendi fjármálaráðuneytinu upplýsingar um hverjir hlutu þessa endurgreiðslu og þá hefði ráðuneytið getað gert viðeigandi ráðstafanir, til dæmis með því að skilgreina greiðslurnar með öðrum hætti eða mæla með því að þær færu beint inn á höfuðstólinn," segir Gréta í samtali við Morgunblaðið.