Ánægja landsmanna með störf Guðna Th. Jóhannessonar, sem forseta Íslands, mælist nú 81,1% og hefur minnkað lítillega frá því hún náði hámarki 85% í apríl og 83,9% í maí. Óánægja með störf forsetans hefur aukist og mældist 5,1% samanborið við 2,8% í síðustu mælingu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem skoðaði ánægju landsmanna með störf Guðna Th.

Fleiri konur en karlar sögðust vera ánægðar með störf forsetans eða 86%, samanborið við 77% karla. Ánægja fólks með störf forseta reyndist mismunandi þegar horft var til stuðnings til stjórnmálaflokka. Mest var ánægjan með störf forsetans hjá stuðningsfólki Samfylkingarinnar, eða 96%. Stuðningsfólk Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins reyndust almennt ekki vera jafn ánægð með störf forsetans.