Stórir hluthafar í bresku verslunarkeðjunni J Sainsbury hafa krafist þess að breytingar verði gerðar á kaupréttarkerfi fyrirtækisins. Þetta kemur í kjölfar uppreisnar minni hluthafa gegn kaupauka upp á 2,4 milljón punda sem ætlunin var að færa stjórnarformanni félagsins Sir Peter Davis.

Óhætt er að segja að það hafi komið mörgum af stærri hluthöfum félagsins á óvart þegar upplýstist að Sir Peter hefði fengið 864.000 hluti í félaginu þrátt fyrir að hagnaður Sainsburys hefði fallið um 8% á síðasta ári. Margir fjárfestar brugðust reiðir við þegar félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í mars síðastliðnum um leið og greint var frá því að Sir Ian Prosser hefði verið tilnefndur sem nýr stjórnarformaður. Hann mun hafa átt að njóta kjara eftir sömu reglum og Sir Peter.

Margir óttast að hluthafar muni greiða atkvæði gegn stjórninni á næsta hluthafafundi og hugmyndir um að Sir Peter endurgreiði 10% af kauprétti sínu þykja ekki líklegar til að kalla fram sátt. Ekki síst þegar horft er til þess að samningurinn er enn í gildi og samkvæmt honum ætti Sir Peter rétt á um 500.000 hlutum í viðbót á þessu ári.

Byggt á netútgáfu Tha Daily Telegraph