Peter S. Gitmark þingmaður á norska Stórþinginu gagnrýnir norska fjármálaeftirlitið harðlega fyrir það sem hann kallar óþarfa tortryggni í garð Íslendinga. Hann hefur sent fjármálaráðherra bréf um málið og krefst útskýringa. Eins og kunnugt er gerði fjármálaeftirlitið athugasemdir við vilja Kaupþings um að eignast aukinn hluta í Storbrand.

Aðgerðir norska fjármálaeftirlitsins geta ekki verið túlkaðar á annan veg en þann að verið sé að reyna að halda íslenskum fyrirtækjum frá norska viðskiptalífinu," segir Peter S. Gitmark, þingmaður norska hægriflokksins. Eins og kunnugt er sló norska fjármálaeftirlitið varnagla við vaxandi eignarhlut Kaupþings í norska tryggingafélaginu Storebrand. Fjármálaeftirlitið setti Kaupþingi þær skorður að eignahlutur þess í norska tryggingafélaginu megi ekki fara yfir 20% en Kaupþing hafði leitað heimildar til að fara með fjórðungshlut í félaginu. Kaupþing á nú rúmlega 17% í Storebrand.

Úrskurður fjármálaeftirlitsins er byggður á því að Kaupþing sé of áhættusækinn banki sem í ofanálag skorti reynslu af tryggingarekstri. Þá gerir norska fjármálaeftirlitið einnig óvissu og ójafnvægi í íslenska hagkerfinu að umtalsefni og segir alls óvíst að Seðlabankinn geti hlaupið undir bagga með Kaupþingi lendi bankinn í vandræðum.

Peter Gitmark þingmaður skrifaði í kjölfarið bréf til Kristínar Halvorsen fjármálaráðherra þar sem hann gagnrýnir fjármálaeftirlitið harðlega fyrir óþarfa tortryggni í garð Íslendinga auk þess sem hann krefst þess að Kristin geri það kunngjört fyrir norska stórþinginu að hún sé ekki neikvæð í garð íslenskra fjármálafyrirtækja eða hafi vantrú á íslenska hagkerfinu.

"Að mínu mati gekk fjármálaeftirlitið of langt," segir Peter í samtali við Viðskiptablaðið. "Stofnunin fór langt út fyrir sitt verksvið, en starf hennar felst fyrst og fremst í að tryggja hagsmuni norskra neytenda en ekki að vera með óþarfa afskiptasemi í ábyrgu og frjálsu hagkerfi," segir Peter. "Þess vegna sendi ég bréfið."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.