Atvinnulífið getur ekki alltaf treyst því að skattar séu ákveðnir eftir fyrirsjáanlegum og fyrirfram ákveðnum reglum. Miðað við núverandi framkvæmd geta fyrirtæki átt hættu á að fá endurálagningu á sköttum allt að sex ár aftur í tímann, þó að þau starfi í góðri trú að ráðleggingum sérfræðinga í skattarétti og samkvæmt leiðbeiningum frá skattayfirvöldum. Þetta segir Bernhard Bogason hdl., einn eigenda Nordik lögfræðiþjónustu, en hann er sérfræðingur í skattarétti.

„Atvinnulífið þarf að geta treyst því að leiðbeiningar og túlkun sem sé búið að gefa út standist og haldi,“ segir Bernhard. Ótækt sé að fyrirtæki fái bakreikninga vegna breyttra túlkunarreglna skattayfirvalda afturvirkt, eins og dæmi séu um.

Hann segir það koma fyrir að skattayfirvöld breyti afstöðu sinni varðandi skattareglur, sem samrýmist jafnvel ekki eldri túlkun, og láti nýja túlkun gilda afturvirkt. Bernhard segir algengt að fyrirtæki komi með mál á borð til hans þar sem þau telji sig hafa verið í góðri trú en fengið endurálagningu vegna breyttrar túlkunar skattayfirvalda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .