Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir óásættanlegt að Ísland hafi ekki verið með í ráðum þegar Norðurskautaráð ákvað að leggja bann við óheftum veiðum í Norður-Íshafi. Ráðið ákvað eftir margra ára samráð að grípa til þessara aðgerða, en þrátt fyrir að Ísland eigi aðild að Norðurskautsráðinu var landið ekki haft með í ráðum um þetta veiðibann.

„Hingað til höfum við átt gott samstarf við þessi átta lönd og það hefur gefist vel - þar til nú," segir Gunnar Bragi, í viðtali við útvarpsstöðina Alaska Dispatch News. RÚV greindi fyrst frá.

„Ég vona auðvitað að samstarfið gangi vel í framtíðinni. En þetta er ekki traustvekjandi, ef að ákveðin ríki í ráðinu ætla að lýsa einhverju yfir án samþykkis hinna.“

Auk Íslands eiga Bandaríkin, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland, Finnland og Svíþjóð aðild að Norðurskautaráðinu. Auk Íslands voru síðastnefndu tvö löndin ekki höfð með í ráðum þegar veiðibannið í Norður-Íshafi var rætt. Í ljósi þess að Svíþjóð og Finnland liggja ekki að Atlantshafi er skiljanlegt að þau hafi ekki komið að umræðunum, en það sama gildir ekki um Ísland.

„Á Íslandi höfum við komið upp arðbærum sjávarútvegi án opinberra styrkja. Kerfið okkar hefur hlotið viðurkenningar fyrir að koma í veg fyrir ofveiði og stuðla að arðbærum rekstri. Við höfum margt fram að færa í þessu samtali," segir Gunnar Bragi. „Ég held að það eigi ekki að fara á milli mála hvers vegna við erum ósátt."

Gunnar Bragi krefst skýringar á því hvers vegna Ísland var skilið útundan.