Á fundi borgarráðs í dag lýstu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem þeir segja að hafi verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014 í höndum Samfylkingar og Besta flokksins.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins var ómyrkur í máli í viðtali við Viðskiptablaðið.  „Það er búið að vera gegnum gangandi tap á rekstrinum síðan Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson tóku við stjórnartaumunum árið 2010. Það er 16,2 milljarða skuldaaukning milli áranna 2014 og 2015 á A-hlutanum“.

Halldór telur að meirihlutinn reyni að setja reksturinn í fegurri búning með því að birta fréttatilkynningu þar sem segir að rekstrarniðurstaða A og B hluta sé neikvæð um tæpa 5 milljarða kr. Sú staðreynd að rekstr­arniðurstaða A-hluta hafi hinsvegar verið nei­kvæð um 13,6 millj­arða sé sláandi.

„Þau ráða ekkert við þetta Píratar, vinstri græn, Björt Framtíð og Samfylkingin,“ segir Halldór.

Aðspurður um hvað Halldór telji betur hafa mátt fara í rekstri borgarinnar segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi t.d. ítrekað bent á að það hafi verið of mikill slaki á nýráðningum. „Frá árinu 2010 hafa bæst við 244 ný stöðugildi. Það eru tæpir tveir milljarðar sem það kostar á ári. Hér er um að ræða óútskýrð stöðugildi. Maður áttar sig ekki á þessu, ef það er slaki í svona málum þá ræður þú ekki við reksturinn. Reksturinn er í vandræðum, afhverju er ekki sett á ráðningarbann?“

Halldór segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi jafnframt lagt fram allskonar tillögur um frestanir á framkvæmdum sem flokkurinn taldi að mættu bíða á meðan náð væri tökum á rekstrinum en meirihlutann hafi fellt allar slíkar tillögur.