*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 15. desember 2017 15:49

Óásættanlegt að stefna samgöngum í voða

Samtök Ferðaþjónustunnar segja Flugvirkjafélag hafa boðað til verkfalls á u.þ.b. 18 mánaða fresti frá 2009.

Ritstjórn
Flugvirkjar hjá Icelandair hafa boðað til verkfalls á sunnudaginn.
Haraldur Guðjónsson

Samtök Ferðaþjónustunnar segja að óásættanlegt sé að samgöngum sé stefnt í voða með fyrirhuguðu verkfalli félagsmanna Flugvirkjafélags Íslands að því er kemur fram í tilkynningu. Félagið hefur boðað til ótímabundins verkfalls frá og með 17. desember náist ekki samningar. Þá segir að komi til verkfalls muni það strax hafa gríðarleg áhrif, en ætla má að aðgerðirnar muni raska flugi hjá 10 þúsund farþegum dag hvern sem aðgerðir flugvirkja standa.

Jafnframt að frá árinu 2009 hafi Flugvirkjafélag Íslands boðað til verkfalls á u.þ.b. eins og hálfs árs fresti með tilheyrandi óvissu og höggi fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.

„Það segir sig sjálft að slíkt vinnumarkaðslíkan gengur ekki upp og er fullreynt. Tryggja verður stöðugt rekstrarumhverfi greinarinnar til framtíðar. Það er umhugsunarefni hvernig fámennir hópar í kjarabaráttu geta ítrekað komið ferðaþjónustunni í uppnám,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur að ferðaþjónustan sé stærsta útflutningsgrein landsins og verkfall muni koma til með að hafa mikil neikvæð áhrif á hagkerfið í heild sinni.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í deilunni sem fyrst og eyða þannig óvissu fyrir ferðaþjónustuna og landsmenn alla. Ábyrgð samningsaðila sé mikil, enda sé flug aðal samgöngumáti ferðamanna til og frá landinu.

SAF treysta því að samningar náist sem allra fyrst þannig að ekki komi til aðgerða af hálfu flugvirkja sunnudaginn 17. desember.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is