Það styttist í þingkosningar í Bandaríkjunum og fylgið tætist af demókrötum, sem þar hafa meirihluta. Obama Bandaríkjaforseta er kennt um lélegt gengi þeirra í könnunum, en tapist þingmeirihlutinn mun það mjög auka á vanda hans, sem þó þótti ærinn. Og sumt bendir til nýrrar hægrisveiflu.

Senn verða tvö ár liðin frá því að Barack Obama var kjörinn Bandaríkjaforseti, en litlar líkur eru þó á því að mikil hátíðahöld verði í Hvíta húsinu í upphafi nóvember. Þá fara nefnilega fram kosningar til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og þriðjungs sæta öldungadeildarinnar, en skoðanakannanir benda til þess að Demókrataflokkurinn muni gjalda afhroð í þeim.

Gallup spyr vikulega að því hvort menn séu líklegri til þess að kjósa demókrata eða repúblikana til þings, svona almennt og óháð einstökum frambjóðendum. Niðurstaðan í þessari viku sýndi að repúblikanar eru með 10% forskot á demókrata og það bil hefur aldrei verið svo breitt frá því Gallup hóf að spyrja í þessa veru fyrir 68 árum! Rétt er þó að hafa í huga að kannanir í sumar hafa verið býsna sveiflukenndar, svo allt getur enn gerst.

Verði niðurstaða kosninganna í samræmi við þá kosningaspá vikunnar munu flestir leggja sökina að dyrum Obama forseta. Það má raunar þegar sjá á kosningaauglýsingum vestra, þar sem margir frambjóðendur demókrata kappkosta nú að undirstrika sjálfstæði sitt og að þeir þekki Obama og Nancy Pelosi þingforseta varla nema af afspurn. Önnur vísbending er að nánast engir frambjóðendur hafa óskað eftir að forsetinn leggi sér lið með einhverjum hætti.

Það er af sem áður var þegar látið var með Obama sem sjálfan endurlausnara stjórnmálanna!

-Nánar í Viðskiptablaðinu