„Ástandið versnar áður en það batnar á ný,“ sagði Barack Obama í dag þegar hann kynnti áform sín um mestu fjárfestingu í innviðum í Bandaríkjunum í hálfa öld. Obama sagði að vegna ástandsins í efnahagslífinu mundi ríkisstjórn sín ekki hafa efni á að hafa áhyggjur af vaxandi hallarekstri ríkissjóðs, að því er segir í FT.

Tillögur Obama um framkvæmdir ríkisins við vegi, brýr, breiðbandsvæðingu og skólabyggingar, auk aðgerða til að auka hagkvæmni í orkunýtingu og aukin framlög til heilbrigðismála eru mun ýtarlegri en almennt er hjá kjörnum forseta áður en þeir taka við embætti, að sögn FT.

Fjárlagahalli Bandaríkjanna er talinn geta orðið yfir 1000 milljarðar dala áður en reiknað er með kostnaði af tillögum Obama.

Hann ræddi einnig um áform sín um að herða á reglum um fjármálalífið til að gera banka, lánshæfismatsfyrirtæki miðlara með veðlán og aðra ábyrgari, að því er segir í frétt FT.

Hann sagðist einnig sannfærður um að ef tekin yrðu réttu skrefin á næstu mánuðum mætti ekki aðeins koma efnahagslífinu aftur á rétta braut heldur gæti landið komið út úr þessu ástandi samkeppnishæfara og hagsæld yrði meiri.