Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna undirbýr nú frekari innspýtingu í hagkerfi Bandaríkjanna.

Samkvæmt Wall Street Journal í dag er talið að Obama muni eyða allt að 1.000 milljörðum Bandaríkjadala í ýmis verkefni á vegum ríkisins á næstu tveimur árum.

Talið er að Obama muni þannig setja fjármagn í minni og meðalstór fyrirtæki auk þess að koma til móts við kröfur hagsmunahópa um aukna heilbrigðisþjónustu, aukin útgjöld í velferðarverkefni auk þess að styðja við bakið á sprotafyrirtækjum.

Þá hefur Wall Street Journal eftir ónafngreindum heimildarmanni að mögulega megi finna hluta „pakkans“ í skattalækkunum.

Nú þegar hefur bandaríkjaþing heimilað notkun 700 milljarða dala til björgunar á banka- og fjármálakerfi landsins.

Að sögn viðmælanda Wall Street Journal þarf mun meira til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Til standi að styðja við bakið á minni fyrirtækjum með því að fjárfesta í ýmsum verkefnum víðsvegar um landið.

Wall Street Journal segir ekkert ákveðið hvar fjármagni verður eytt auk þess sem ekkert liggi fyrir um hvar nákvæmlega ríkisstjórnin mun verja fjármagni.