Barack Obama, bandaríkjaforseti segir Bandaríkin vissulega eiga í erfiðleikum um þessar mundir en landið stefni þó ekki í kreppuástand líkt og á Íslandi.

Þetta sagði Obama þegar hann svaraði spurningum á borgarafundi í Los Angeles í gær. Obama sagði að ríkissjóður, sem þegar er rekinn með miklum halla, yrði áfram rekinn með halla næstu árin auk þess sem það muni taka tíma fyrir hagkerfi landsins að komast í gang á ný þannig að atvinnulífið og heimilin í landinu geti starfað með eðlilegum hætti á ný.

Þegar Obama var spurður hvort ástandið í Bandaríkjunum gæti „orðið jafnslæmt og á Íslandi?“ var svar Obama mjög einfalt; „Nei!“

Obama varaði þó við því að erlend skuldabyrði Bandaríkjanna gæti orðið það mikil að næstu kynslóðir þyrftu að bera hana. Hann sagði því mikilægt að ná tökum á erlendum skuldum.