Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag pistil á vefsíðu CNN, þar sem að hann fer yfir þróun mála hvað varðar geimferðir Bandaríkjamanna til Mars.

„Ein af mínum fyrstu minningum er þegar ég sat á öxlum afa míns og veifaði geimförum sem höfðu snúið aftur til Hawaii,“ þannig hefst grein Obama, sem tekur fram að hann hafi ennþá þann brennandi áhuga á geimferðum Bandaríkjanna sem hann hafði sem ungur maður.

Næsta skref

Á síðasta ári þá fann NASA vatn á mars og vísbendingar um ís á einu af tunglum Júpíters.

Næsta skref að mati Obama er að senda geimfara til Mars fyrir árið 2030 og stuðla að því að þeir geti snúið öruggir heim til jarðar. Lokamarkmiðið væri þá að geta haldið til Mars og dvalið þar til lengri tíma. Til þess þarf þá samstarf ríkisins og einkafjárfesta.

Eins og staðan er þá vinna Bandaríkin að því með fjárfestum að senda geimfara út í geim þar sem þeir geta dvalið til lengri tíma. Þessar tilraunir geta því verið gott veganesti fyrir tilhugaða ferð til Mars.

Að lokum segist Obama vona að einhvern daginn geti hann tekið barnabörn sín á háhest og horft upp til stjarnanna og hugsað um aðila sem dvelja í stjörnunum til lengri tíma, til hagsbóta mannkynsins.