Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvatti í gær banka og fjármálafyrirtæki til að læra af hruni bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers og jafnframt styðja þær breytingar sem hann hefur lagt til um fjármálastarfsemi vestanhafs.

Þetta sagði Obama í gær þegar hann heimsótti Wall Street í New York, helsta fjármálahverfi Bandaríkjanna en sem kunnugt er hrundi Lehman Brothers einmitt á þessum degi fyrir ári síðan með skelfilegum afleiðingum fyrir fjármálageirann út um allan heim.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa eftir talsmanni forsetans, sem hefur verið meira og minna upptekinn við að koma á breytingum á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna síðustu vikur, að með heimsókninni í gær væri forsetinn að sýna að fjármálageirinn væri ofarlega á verkefnalista forsetans.

Þær breytingar sem Obama vísaði til í ræðu sinni í gær fjalla um hert eftirlit opinbera stofnana með fjármála- og tryggingastarfsemi í Bandaríkjunum. Obama hefur þegar kynnt frumvarp sem lagt verður fyrir bandaríkjaþing um miðjan október sem felur m.a. í sér breytingar á eftirlitshlutverki þeirra stofnana sem koma að fjármálageiranum.

„Það eru enn allt of margir sem hafa ekkert lært að hruni Lehman Brothers,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Obama sem einnig lagði áherslu á að stjórnendur og millistjórnendur þyrftu að koma bónusgreiðslum til sín í ásættanlegt horf og læra af mistökum fyrri ára.

En Obama lét ekki staðar numið við að tala um breytingar á reglugerðum innanlands. Hann sagðist ætla að taka málið upp á leiðtogafundi 20 stærstu iðnríkja heims (G20) sem haldinn verður í næstu viku.

„Á meðan Bandaríkin vinna markvisst að því að breyta regluverkinu þá munum við einnig sjá til þess að önnur ríki geri slíkt hið sama,“ sagði Obama í ræðu sem hann hélt á Wall Street.