Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að hann hefði í hyggju að setja upp svokallaðan slæman banka (e. bad bank) sem myndi taka á sig eitruð veð en það ku vera nýr snúningur í björgunaráætlun yfirvalda vestanhafs.

Bloomberg fréttaveitan heldur því fram að rekja megi hækkanir dagsins til þessara áætlana en auk þess eru hin ýmsu félög að tilkynna um betri afkomutölur en búist var við fyrir fjórða ársfjórðung.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 3,6%, Dow Jones um 2,5% og S&P 500 um 3,4%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Þannig hækkuðu Citigroup og Bank of America um rúm 12% svo dæmi séu tekin.

„Áhrifin sem þessi banki gæti haft er líklega jákvæð en það má í raun líta á þetta sem ruslatunnu eða jafnvel syndaraflausn fjármálageirans,“ segir viðmælandi Bloomberg.

„Með þessu verður hægt að taka hin eitruðu veð nánast úr umferð en þau eru að kæfa fjármálakerfið.“

Búist má við því að Bandaríkjaþing samþykki í dag eða á morgun nýjan björgunarpakka sem hljóðar upp á um 816 milljarða Bandaríkjadali. Þar af má reikna með um 600 milljörðum dala til eyðslu, meðal annars í hinn nýja banka, auk skattaívilnana.

Seðlabanki Bandaríkjanna hélt stýrivöxtum sínum óbreyttum í dag en þeir eru nú á bilinu 0% - 0,25%. Þá tilkynnti bankinn að ólíklegt sé að stýrivextir hækki á næstunni.