Barack Obama boðar í dag hóp fjármálasérfræðinga á fund sinn. Obama mun þar með beina kosningabaráttu sinni á nýja braut. Hann hefur undanfarið lagt áherslu á að auka trúverðugleika sinn þegar kemur að utanríkismálum en nú mun hann einbeita sér að efnahagsmálunum, sem er sá málaflokkur sem bandarískum kjósendum þykir skipta mestu máli í forsetakosningunum þar í landi.

Meðal þeirra sem Obama mun funda með eru Warren Buffett, Paul Volcker fyrrum Seðlabankastjóri Bandaríkjanna og Eric Schmidt, stjórnarformaður Google.

Obama segir sjálfur að hann hlakki til að beina kastljósinu nú að háu eldsneytisverði, gjaldþrotum heimila sem og banka.

Að sögn Obama er tilgangur fundarins, sem haldinn er í Washington, að skoða þær tillögur sem nú liggja fyrir í efnahagsmálum sem og að þróa nýjar tillögur um hvað skuli til bragðs taka.

Skoðanakannanir vestan hafs sýna að þegar kemur að efnahagsmálum treysta kjósendur Obama betur en McCain.