Eftir nær tveggja ára kosningabaráttu sem endaði með sögulegum sigri aðfaranótt miðvikudags mætti ætla að Obama hefði unnið sér inn smá frítíma. Annað var þó uppi á teningnum. Snörp dýfa á hlutabréfamörkuðum daginn eftir kosningarnar var skýr áminning um að hagkerfið stefnir rakleitt niður á við eftir “verstu fjármálakreppu síðastliðna öld,” eins og Obama orðaði það í sigurræðu sinni.

Strax á fimmtudaginn hófu talsmenn Obamas að tilkynna hverjir myndu gegna nokkrum lykilhlutverkum í ríkisstjórn hans. Rahm Emanuel, fulltrúadeildarþingmaður frá Illinois, var boðin staða starfsmannastjóra Hvíta hússins og reiknuðu álitsgjafar fastlega með að hann tæki við starfinu. Mest spenna ríkir þó um hver muni gegna stöðu fjármálaráðherra, en skv. frétt CNN hefur embættið sjaldan eða aldrei verið talið jafn mikilvægt og nú.

Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í gær eru aðallega tvö nöfn nefnd til sögunnar: Lawrence H. Summers, sem var fjármálaráherra í forsetatíð Clintons, og Timothy F. Geithner, núverandi yfirmaður seðlabanka New York. Þá hafa Paul Volckner, fyrrum seðlabankastjóri, og James Cimon, framkvæmdastjóri J.P. Morgan Chase, verið nefndir sem líklegir kandítatar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .