Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fékk afhent minnisblað frá þremur bandarískum ráðherrum um aðgerðir stjórnvalda þar í landi gegn Íslendingum vegna hvalveiða. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Í minnisblaðinu, sem dagsett er þann 23. janúar síðastliðinn, kemur meðal annars fram að bandarískir ráðherrar sniðgangi viðburði á Íslandi og að Íslendingum hafi ekki verið boðið á alþjóðlegu hafráðstefnuna Our Ocean í júní í fyrra. Einnig hafi fulltrúar Bandaríkjanna gert grein fyrir afstöðu sinni við hin ýmsu tilefni undanfarið ár bæði við íslenska ráðamenn og aðra.

Þá segir einnig að fram komi í minnisblaðinu að öflugt teymi vinni gegn smygli á hvalkjöti til Bandaríkjanna, og vitað sé um þrjú tilvik þar sem gerðamenn reyndu að koma með íslenskt hvalkjöt til Bandaríkjanna.

Minnisblaðið er undirritað af John Kerry utanríkisráðherra, Sally Jewell innanríkisráðherra og Penny Pitzker viðskiptaráðherra.