Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, vissi ekki af því að þarlend stjórnvöld hleruðu síma leiðtoga annarra ríkja fyrr en í sumar. Þetta hefur Washington Post eftir háttsettum embættismönnum í bandarískri stjórnsýslu.

Þessir háttsettu embættismenn veittu Washington Post nafnlausar upplýsingar vegna þess hve viðkvæmt málið er. Þeir segja að Obama hafi fyrirskipað að upplýsingum um hleranirnar yrði haldið leyndum.

Heimildarmennirnir segja jafnframt að Obama hafi ekki orðið pirraður eða reiður yfir því að hann hafi ekki fengið að vita af því fyrr að verið væri að hlera leiðtoga þjóða sem vinveittar eru Bandaríkjunum.

Sími Merkel var hleraður allt frá árinu 2002 þar til í ár. Þýskir fjölmiðlar höfðu fullyrt að Bandaríkjamenn hafi vitað af hlerununum allt frá árinu 2010.