Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hyggst leggja á skatt á hagnað bandarískra fyrirtækja sem þau geyma utan Bandaríkjanna. Er ætlunin að loka þar með smugu sem fyrirtækin hafa notað í bandarískri löggjöf til þess að komast hjá skattlagningu. BBC News greinir frá málinu.

Þar kemur fram að fjárlög næsta árs geri ráð fyrir því að lagður verði 14% einskiptisskattur á hagnaðinn, en skatturinn verði svo hækkaður í framhaldinu og muni nema 19% á framtíðarhagnað fyrirtækjanna. Áætlar hann að 238 milljarðar Bandaríkjadala safnist með skattlagningunni sem nota á til þess að fjármagna vegaframkvæmdir í Bandaríkjunum.

Áætlað er að bandarísk fyrirtæki geymi hagnað upp á 2,1 billjón dala utan Bandaríkjanna. Það er þó óráðið hvort tillagan komist í gegnum bandaríska þingið þar sem repúblikanar eru í meirihluta í báðum deildum.