Barack Obama, líklegur frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum sem fram eiga að fara í Bandaríkjunum í nóvember næstkomandi, segist ekki vera andstæðingur frjálsra viðskipta þrátt fyrir að hann hafi látið gagnrýnin ummæli falla um Fríverslunarsamning Norður-Afríku (NAFTA).

Obama berst nú við Hillary Clinton um útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar. Baráttan fer nú fram í Ohio og Texas, en bæði þessi stóru og fjölmennu ríki halda prófkjör sín 4. mars næstkomandi.

Það er sérstaklega í Ohio sem gagnrýni Obama á NAFTA hefur verið hávær, en andstaða við fríverslunarsamninginn er mikil í því ríki þar sem honum er meðal annars kennt um hnignun framleiðslugreina í ríkinu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Obama að hann stæri sig af því að hafa verið alla tíð andvígur NAFTA en hann segir samninginn bitna á bandarískum verkamönnum. Samningurinn var innleiddur árið 1994 þegar eiginmaður Hillary Clinton, Bill, gegndi embætti forseta. Þrátt fyrir gagnrýnina á NAFTA-samninginn segist Obama þó ekki vera andvígur slíku samkomulagi í sjálfu sér.

Hann segir jafnframt að Doha-viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verði einnig að snúast um lágmarkskröfur um atriði eins og gæðaeftirlit og hvernig eigi að framfylgja því. Hann gagnrýnir jafnframt Clinton fyrir að skipta um skoðun í afstöðu sinni gagnvart NAFTA: Í endurminningum sínum lýsir Clinton því yfir að NAFTA-samkomulagið hafi verið vel heppnað en nú segir hún að hún sé með áætlun um hvernig megi endurbæta það. Hún segir Obama einungis kvarta yfir NAFTA en ekki leggja fram neinar áætlanir um hvernig megi bæta það.

Sökum vísbendinga um niðursveiflu í Bandaríkjunum eru efnahagsmálin í kastljósinu. Margir óttast það sem þeir telja vaxandi tilhneigingu stjórnmálamanna til þess að boða einangrunarstefnu og lýsa efasemdum um gildi frjálsra viðskipta því meira hefur borið á slíku en á undanförnum misserum í Bandaríkjunum.