Barack Obama hefur aukið forskot sitt á John McCain umtalsvert síðastliðnar tvær vikur.

Samkvæmt skoðanakönnun New York Times og CBS News ætla 53% aðspurðra að kjósa Obama á meðan 36% ætla að styðja McCain.

Álitsgjafar fjölmiðlanna nefna aðallega tvær ástæður til að skýra þessa þróun. Annars vegar telja menn að hin neikvæða kosningabarátta sem framboð McCains hefur staðið fyrir á lokasprettinum, hafi mistekist. Hins vegar segja menn að erfiðleikar í efnahagslífinu vinni með Obama og McCain líði fyrir tengslin við Bush forseta, sem nýtur nú aðeins stuðnings 24% Bandaríkjamanna.

Samkvæmt könnun CNN-fréttastofunnar hefur Obama stuðning 277 kjörmanna en McCain 174. Atkvæði 87 kjörmanna eru óviss en til þess að ná kjöri þarf frambjóðandi stuðning 270 kjörmanna. Það verður því á brattann að sækja fyrir McCain á loksprettinum.