Barack Obama, Bandaríkjaforseti neitaði í gær að verða við beiðni bandarísku bílarisunum General Motors og Chrysler um að veita þeim frekari fyrirgreiðslu úr ríkissjóð en beindi þeim tilmælum til stjórna félaganna að þær myndu leggja fram raunhæfa rekstaráætlun til að draga úr kostnaði ella er hætta á að félögin fari í þrot.

General Motors hefur þegar þegið um 13,4 milljarða dala neyðarlán frá ríkinu og bað nú um 16,6 milljarða aukalega. Chrysler hefur fengið um 4 milljarða dala og bað nú m 5 milljarða til viðbótar. (Þó lánaveitingin til Chrysler sé mun lægri upphæð er hún þó í svipuðu hlutfalli sé litið til stæðar félaganna.)

Þegar neyðarlánin voru upprunalega veitt um áramótin lögðu stjórnvöl áherslu á að bílarisarnir legðu fram raunhæfa rekstaráætlun í því skyni að draga úr kostnaði og sjá til þess að reksturinn bæri sig. Að mati bandaríska fjármálaráðuneytisins hafa félögin ekki gert það með fullnægjandi hætti og því bregst Obama forseti svona við.

Viðræður General Motors við bandarísk stjórnvöld tóku á sig nýja mynd í gær þegar Rick Wagoner, forstjóri GM sagði upp störfum að ósk Obama eftir að hafa starfað hjá félaginu í rétt rúm 30 ár en engin opinber ástæða er gefin upp fyrir uppsögninni nema að óskin hafi komið frá Obama.

Samkvæmt frétt Reuters af málinu hefur Hvíta húsnið nú gefið Chrysler 30 daga og GM 60 daga til að ná samningum við kröfuhafa og sömuleiðis við verkalýðsfélög (það þarf að lækka laun starfsmanna) ella verði félögin látin afskiptalaus en viðmælendur Reuters eru sammála um að náist ekki samningar muni félögin stefna beint í gjaldþrot.

„Það munu allir þurfa að færa fórnir, stjórn félaganna, starfsmenn á öllum stigum, hluthafar, kröfuhafar, birgjar og söluaðilar,“ sagði Obama við fjölmiðla aðspurður um málið í gærkvöldi.

„Það mun allir þurfa að ganga að samningaborðinu hafandi áttað sig á því að nú sé tíminn til að taka afrifaríkar ákvarðanir jafnvel þó þær séu sársaukafullar í stuttan tíma.“

Rétt er að taka fram að bílaframleiðandinn Ford fékk einnig neyðarlán um áramót. Ford hefur ekki skilað rekstraráætlun til hins opinbera en félagið hefur einnig lýst því yfir að ekki sé þörf á frekara láni og byrjað verði að greiða af neyðarláninu í sumar eða í haust.