Talsmaður Hvíta hússins hefur greint frá því að ástandið í Úkraínu verði aðalumræðuefnið þegar Bandaríkjaforsetinn Barack Obama hittir Vladimir Putin Rússlandsforseta í New York í næstu viku.

,,Þegar forsetinn sest niður með Putin forseta, þá verður Úkraína efst á hans forgangslista," sagði Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, við blaðamenn.

Hann sagði að Putin hefði óskað eftir fundinum með Obama, en enn hefur ekki verið ákveðin nákvæm dagsetning. Allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna fer fram í New York í næstu viku og er fundurinn tengdur þeim viðburði.

Ástandið í Úkraínu hefur verið eldfimt um nokkurt skeið, en það byrjaði með uppreisn gegn þáverandi forseta landsins og innlimun Rússlands á Krímskaganum í kjölfarið. Síðan þá hefur borgarastyrjöld geysað í landinu á milli stjórnvalda og aðskilnaðarsinna.