Barack Obama forseti Bandaríkjanna kynnti í dag aðgerðaáætlun sína í ríkisfjármálum fyrir næsta ár. Á því ári mun bandaríska ríkið skera niður um 1.100 milljarða dollara, eða sem nemur rúmlega 126 þúsund milljörðum króna. Obama sagði að ráðast yrði að vandanum til að tryggja að komandi kynslóðir sætu ekki uppi með hann.

Sérfræðingar sem New York Times vitna til í frétt sinni um málið segja að niðurskurðurinn sé ekki nægilega mikill. Þá hafa repúblikanar í bandaríska þinginu einnig sagt að niðurskurðurinn þurfi að vera meiri. Bara á þessu ári stefnir hallinn á fjárlögum í að vera 1.500 milljarðar dollara.

Niðurskurðurinn mun koma niður á ýmissi velferðarþjónustu um öll Bandaríkin, að því er New York Times greinir frá. Þá verða hernarðarverkefni Bandaríkjanna endurskipulögð með það að markmiði að draga verulega úr útgjöldum.

Endanleg áætlun um hvar verður skorið niður hefur þó ekki verið lögð fram eða kynnt.

Obama hefur þegar kynnt áform um hækkun skatta á stór fyrirtæki, ekki síst í olíuiðnaði. Þá mun stóreignafólk einnig þurfa að greiða hærri skatta.