Barack Obama, Bandaríkjaforseti, telur að enn stafi hætta af því að hryðjuverkahópar komist yfir kjarnorkuvopn, þrátt fyrir að miklum árangri hafi verið náð í afvopnun og samningum um notkun kjarnavopna.

„Það er enginn vafi á því, að tækist þessum brjálæðingum að komast yfir kjarnavopn, þá myndu þeir nota það til að myrða eins marga og hugsast getur,” sagði forsetinn á ráðstefnu í Washington í dag. Þá vísaði hann til hópa á borð við Daesh (ISIS) og al Qaeda.

Hryðjuverkaárásir Daesh í Brussel nýlega hafa vakið upp ótta meðal fólks - en möguleiki er á því að innan skamms brjóti hryðjuverkamennirnir sér leiðir inn í kjarnorkuver eða álíka og hnupli geislavirkum efnum sem nota mætti til sprengjusmíða.

Athygli vekur að Vladimir Putin ákvað að mæta ekki á ráðstefnuna - sökum spennu sem hefur myndast yfir deilum Bandaríkjanna og Rússlands vegna málefna Sýrlands.