Barack Obama varar við „jólum að hætti Scrooge“ verði ekki gripið til aðgerða til að komast hjá hinu svokallaða fjárlagaþverhnípi (e. fiscal cliff). Fjárlagaþverhnípið er samblanda af boðuðum skattahækkunum, afnámi skattaafslátta og niðurskurði á ríkisútgjöldum sem taka gildi vestanhafs eftir áramótin.

Varað hefur við því að áhrifin á efnahagslíf Bandaríkjanna geti verið neikvæð þar sem ríkisskuldir aukist og draga muni úr einkaneyslu. Greiningaraðilar telja hugsanlegt að landið geti lent inn í niðursveifluskeiði á nýjan leik.

Obama hefur undanfarið ferðast um Bandaríkin og kom meðal annars við í verksmiðjunni Rodon Group. Þar sagði forsetinn mikilvægt að bæði demókratar og repúblikanar stigu út fyrir þægindarammann og finndu sameiginlega lausn á vandanum.

Obama nefndi sem dæmi að ef ekki tækist að ná samkomulagi um að framlengja skattaafslætti fyrir miðstéttina í Bandaríkjunum, en sá afsláttur rennur út um áramót, væri það eins og að afhenda þeim kolamola í jólagjöf. Það væru jól að hætti Scrooge, sagði Obama.