Barack Obama, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur valið sér öldungardeildarþingmanninn Joe Biden sem varaforsetaefni sitt. Þetta var tilkynnt í dag.

Biden er formaður nefndar öldungadeildarinnar sem sér um utanríkissamskipti. Biden hefur víðtæka reynslu í utanríkismálum. Republíkanar hafa jafnan bent á að helsti ljóður á ráði Obama sé skortur á reynslu í utanríkismálum, og því munu líklega margir telja varaforsetaval hans nokkuð sterkan leik.

Biden hefur jafnframt verkamannsbakgrunn, sem mun hjálpa Obama frekar að ná til verkafólks.

Obama, og forsetaframbjóðandi Repúblikana, John McCain, eru nokkuð jafnir í könnunum. McCain tók þó naumt forskot í fyrsta sinn um daginn eftir að Obama hafði lengi mælst mun betur í skoðanakönnunum.