Barack Obama birti í dag tilfinningaþrungna grein á vef breska blaðsins The Telegraph þar sem hann hvetur Breta til þess að ganga ekki út úr Evrópusambandinu.

Í grein sinni lýsir forsetinn því yfir að Bandaríkin, Bretland og ESB hafi í sameiningu breytt áratugum af stríðsrekstri í Evrópu í áratugi af friði og unnið saman sem ein heild til að gera heiminn að betri stað. Segir hann jafnframt að hagsmunir Bandaríkjanna séu samtvinnaðir hagsmunum Breta í málinu vegna allra þeirra bandarísku hermanna sem félli í seinni heimstyrjöldinni og hvíli nú í Evrópskum kirkjugörðum.

Obama segir að gangi Bretar útúr Evrópusambandinu muni þjóðin í framtíðinni eiga erfiðara um vik í baráttunni gegn hryðjuverkum, flóttamannavandanum og mögulegum efnahagslegum áföllum í heiminum.

Greinin hefur vakið upp hörð viðbrögð breskra stjórnmálamanna sem barist hafa fyrir útgöngu Breta úr sambandinu. Hafa þeir meðal annars lýst greininni sem óviðeigandi afskiptum af breskum stjórnmálum og bent á að í henni sé forsetinn að hvetja breskan almennin til þess að sætta sig við aðstæður sem hann myndi aldrei samþykkja fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar.