Engar breytingar hafa orðið á áformum um að skrá Skipti, móðurfélag Símans, í kauphöllina að sögn Péturs Þ. Óskarssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Skipta.

Staðið hefur til um hríð að skrá Skipti í Kauphöllina en í árslok fóru forsvarsmenn þess á leit við stjórnvöld að skráningunni yrði frestað fram yfir áramót. Var félaginu veittur frestur til loka fyrsta ársfjórðungs, þ.e. marsloka.

Pétur segir að undirbúningur skráningarinnar gangi prýðilega. „Við höfum keyrt á því máli óháð rás atburða í Slóveníu og vinnum það í góðu samstarfi við Kauphöllina og ráðgjafa okkar, Kaupþing. Við sjáum engin sérstök vandkvæði í því ferli,” segir Pétur.

Helstu eigendur Skipta eru Exista hf., Kaupþing hf., Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Gildi-lífeyrissjóður., Stafir lífeyrissjóður og Sameinaði lífeyrissjóðurinn en samtals eiga þessir aðilar um 92% hlutafjár í félaginu.