Atvinnuleysi var óbreytt á evrusvæðinu í apríl miðað við marsmánuð, eða 9% af mannafla. Atvinnuleysi hefur lítið breyst að undanförnu þrátt fyrir að eftirspurn hafi tekið nokkuð við sér. Með auknum hagvexti er líklegt að ástand batni á vinnumarkaði. Minnsta atvinnuleysið mældist í Lúxemborg (4,2%), Írlandi og Austurríki (4,5% í báðum) en mesta atvinnuleysið var á Spáni (11,1%).

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að atvinnuleysi hefur aukist mest í Hollandi að undanförnu en þar er atvinnuleysi nú 4,7% en var 3,5% á sama tíma í fyrra. Í stærstu hagkerfum á evrusvæðinu hefur þróunin verið misjöfn. "Til dæmis hefur atvinnuleysi í Þýskalandi aukist síðustu mánuði en það hefur heldur farið minnkandi í Frakklandi. Seðlabanki Evrópu ákveður stýrivexti á fundi sínum í dag. Ekki er búist við breytingum á peningamálastefnu bankans að þessu sinni en stýrivextir bankans eru 2,0% og hafa verið óbreyttir frá því í júní," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.