Skráð atvinnuleysi mældist 4,9% í nóvember sem er óbreytt frá því í október. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar . Stofnunin spáir því að atvinnuleysi verði svipað í desembermánuði og var í nóvember, á bilinu 4,9% til 5,1%.

Atvinnuleysi er nú komið á sama stað og var í janúar 2020 áður en faraldurinn skall á. Samkvæmt skýrslunni hafa ráðningarstyrkirnir spilað stórt hlutverk í góðum árangri í baráttunni við atvinnuleysið, en í janúar á þessu ári var atvinnuleysi 11,6% á landsvísu.

10.155 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok nóvember og fækkaði um 28 í mánuðinum. Fækkunin var einungis á höfuðborgarsvæðinu líkt og í október. Atvinnuleysi er enn langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í fjóra mánuði, en fór hæst upp í 24,5% í janúar 2021, eins og segir í skýrslunni.

Yfirleitt eykst atvinnuleysi á milli október og nóvember og má því líta á óbreytt atvinnuleysi með jákvæðum hætti, samkvæmt greiningu hagfræðideildar Landsbankans.