Eins og fram hefur komið, gildir tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda á flugi til landsins í 30 daga frá 14. mars næstkomandi, en Icelandair segir að bannið muni ekki hafa áhrif á flug félagsins fyrr en á laugardag.

Icelandair sé jafnframt áfram heimilt að fljúga til og frá Bandaríkjunum á þessu tímabili til ákveðinna flugvalla en takmarkanir gilda fyrir farþega, aðra en bandaríska ríkisborgara, sem dvalið hafa á Schengen svæðinu.

Allt flug hjá Icelandair verður á áætlun í dag og á morgun. Þegar ferðabannið tekur gildi á laugardag, verður flug til eftirfarandi áfangastaða Icelandair í Bandaríkjunum á áætlun: New York (JFK og EWR), Chicago, Seattle og Washington DC en ferðabann gildir þá fyrir alla sem dvalið hafa á Schengen svæðinu, nema bandaríska ríkisborgara.

Þann 14.-16. mars verður öllu flugi til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando aflýst. Flug frá Orlando og Denver laugardaginn 14. mars verður á áætlun. Öll flug til Evrópu eru á áætlun. Ferðabannið gildir ekki um fraktflutninga. Flugáætlun félagsins í heild sinni er sagt vera í stöðugri skoðun við þessar fordæmalausu aðstæður og er því breytingum háð.