*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 12. mars 2020 10:01

Óbreytt flug Icelandair til laugardags

Áfram flogið til New York, Chicago, Seattle og Washington, en aflýst til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eins og fram hefur komið, gildir tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda á flugi til landsins í 30 daga frá 14. mars næstkomandi, en Icelandair segir að bannið muni ekki hafa áhrif á flug félagsins fyrr en á laugardag.

Icelandair sé jafnframt áfram heimilt að fljúga til og frá Bandaríkjunum á þessu tímabili til ákveðinna flugvalla en takmarkanir gilda fyrir farþega, aðra en bandaríska ríkisborgara, sem dvalið hafa á Schengen svæðinu.

Allt flug hjá Icelandair verður á áætlun í dag og á morgun. Þegar ferðabannið tekur gildi á laugardag, verður flug til eftirfarandi áfangastaða Icelandair í Bandaríkjunum á áætlun: New York (JFK og EWR), Chicago, Seattle og Washington DC en ferðabann gildir þá fyrir alla sem dvalið hafa á Schengen svæðinu, nema bandaríska ríkisborgara.

Þann 14.-16. mars verður öllu flugi til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando aflýst. Flug frá Orlando og Denver laugardaginn 14. mars verður á áætlun. Öll flug til Evrópu eru á áætlun. Ferðabannið gildir ekki um fraktflutninga. Flugáætlun félagsins í heild sinni er sagt vera í stöðugri skoðun við þessar fordæmalausu aðstæður og er því breytingum háð.