Alcoa, eigandi Fjarðaáls, mun segja upp 15.000 manns á þessu ári, eða 14,5% af starfsmönnum fyrirtækisins. Samdráttur í framleiðslu verður einnig aukinn um 135.000 tonn umfram það sem áður hafði verið ákveðið og mun í heildina nema 750.000 tonnum, eða um 18% af framleiðslu fyrirtækisins.

Þetta jafngildir ríflega tvöfaldri framleiðslu álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði, en samkvæmt upplýsingum frá Fjardaáli verður enginn samdráttur í framleiðslu þar.

Alcoa hyggst loka fleiri verksmiðjum en áður stóð til og minnka fjárfestingar um 50%. Þetta kemur fram í WSJ sem segir að þetta sé viðurkenning á að fyrri niðurskurður, sem kynntur var í haust, sé ófullnægjandi vegna viðvarandi samdráttar í efnahagslífinu.

„Við munum halda áfram að fylgjast með breytingum á markaði til að tryggja að við lögum framleiðslugetu að breytingum á eftirspurn í framtíðinni og grípum ný tækifæri sem skapast. Þetta eru óvenjulegir tímar og þeir krefjast óvenjulegra aðgerða,“ hefur WSJ eftir Klaus Kleinfeld, framkvæmdastjóra Alcoa.