Í kjölfar þess að Burðarási var skipt upp á milli Landsbankans og Straums hafa erlendu matsfyrirtækin tekið lánshæfismat Landsbankans til endurskoðunar. Er það hefðbundið verklag hjá matsfyrirtækjunum að meta áhrif á lánshæfismat þegar fyrirtæki vaxa með ytri vexti. Niðurstaða bæði Moody's og Fitch er að halda lánshæfismati Landsbankans óbreyttu. Moody's metur lánshæfi bankans sem fyrr stigi neðar en lánshæfi KB banka og Íslandsbanka. Fitch á hinn bóginn metur lánshæfi Landsbanka og Íslandsbanka áþekkt en hefur ekki gefið út mat á KB banka.

Í umsögn sinni bendir Moodys á að staða Landsbankans í hlutabréfum aukist við viðskiptin sem geti aukið sveiflur í afkomu og þar með eigin fé. Það sem vegi á móti þeim áhrifum sé að eigið fé aukist vegna hlutafjáraukningarinnar. Fitch tekur í sama streng en telur að áhrifin af hlutafjáraukningunni vegi þyngra en áhrifin af stærri stöðu í innlendum hlutabréfum og viðskiptin séu því í heild góð fyrir Landsbankann.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.