Nýr konungur Sádí-Arabíu, Salman bin Abdulaziz Al Saud, mun ekki skipta um olíumálaráðherra, heldur mun Ali Al-Naimi halda stöðunni, að því er segir í frétt Bloomberg. Er þetta sagt renna stoðum undir þá kenningu að Salman muni halda óbreyttri þeirri stefnu að draga ekki úr olíuframleiðslu þrátt fyrir miklar lækkanir á olíuverði.

Al-Naimi var leiðandi í þeirri ákvörðun OPEC-ríkjanna þann 27. nóvember að halda olíuframleiðslu óbreyttri. Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum, einkum vegna vinnslu olíu úr sandsteinslögum, hefur ekki verið meiri í þrjá áratugi og hefur það stuðlað að verðlækkununum.