Greiningardeild KB banka hefur frá 8. apríl mælt með markaðsvogun á bréfum FL Group. Uppgjörið nú gefur ekki tilefni til breytingar á vogunarráðgjöf og mælur greiningardeildin því áfram með að fjárfestar markaðsvegi bréf sín í FL Group í dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum.

Hagnaður FL Group á öðrum ársfjórðungi nam 1.908 m.kr. og var því í takt við væntingar Greiningardeildar um 1.873 m.kr. hagnað. "Nokkur frávik voru þó frá okkar spá. Má þar helst nefna að afkoma fjárfestingar-hlutans var mun betri en við gerðum ráð fyrir en gangvirðisbreytingar af hlutabréfaeign námu tæplega 1,7 milljörðum. Við höfðum aftur á móti gert ráð fyrir um 1,1 ma.kr. í okkar spá og skýrist munurinn að mestu af gangvirðisbreytingum afleiðusamninga, sem var mun hagstæðari en við höfðum gert ráð fyrir.

Afkoma flugrekstrarins var að mestu í takt við væntingar Greiningardeildar en afkoman í ferðaþjónustunni var mun lakari en við höfðum gert ráð fyrir. Þar voru tekjur mun minni en við gerðum ráð fyrir en kostnaðarliðir í samræmi við spá. Framlegð og afkoma hins hefðbundna rekstrarhluta FL Group er því undir okkar spá," segir greiningardeild KB banka.