Á aðalfundi Arion banka í dag var stjórn bankans endurkjörin, en hana skipa þau Benedikt Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason, Guðrún Johnsen, Kirstín Þ. Flygenring, Måns Höglund, Monica Caneman og Þóra Hallgrímsdóttir. Kirstín er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni, aðrir eru tilnefndir af Kaupskilum. Á fundinum voru breytingar á launum stjórnar samþykktar sem fela í sér 3,5% meðaltalshækkun. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum.

Varamenn í stjórn bankans voru einnig endurkjörnir, en þau eru Björg Arnardóttir, Sigurlaug Ásta Jónsdóttir og Ólafur Örn Svansson.

Regluvarsla efld

Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka, flutti skýrslu stjórnar á fundinum. Monica sagði árið 2015 hafa verið gott ár í starfsemi bankans. Arðsemi ársins hafi numið 28,1% og markast af traustum grunnrekstri bankans en einnig af óreglulegum liðum sem hafi haft umtalsverð jákvæð áhrif. Regluleg starfsemi bankans hafi gengið vel á árinu og hafi skilað ásættanlegri arðsemi eiginfjár, eða 10,4%, á sama tíma og eigið fé bankans sé hátt, eða um 193 milljarðar króna.

Monica ræddi aðgerðir sem gripið var til innan bankans, m.a. að frumkvæði stjórnar, til að bregðast við gagnrýni bæði frá FME og almenningi á árinu 2015. Ferlum hafi verið breytt til að styrkja ákvarðanatöku. Einnig hafi regluvarsla bankans verið efld og skýrar kveðið á um aðkomu stjórnar að ýmsum málum. Hún sagði ljóst að umræða undanfarinna mánaða um einstök fjármálafyrirtæki og fjármálakerfið í heild sýndi vel mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki sýndu varfærni í öllum sínum verkum vildu þau ávinna sér traust.

Áhersla á skráningu hlutabréfa

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sagði í sínu máli að síðasta ár hafi einkennst um margt af því að síðustu stóru úrlausnarverkefn bankans hafi verið til lykta leidd. Fyrst og fremst hafi verið um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum: Reitum fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd. Öll hafi félögin verið skráð í kauphöll hér á landi eða erlendis, nema eignarhluturinn í Bakkavor Group sem var seldur í kjölfar söluferlis í umsjón Barclays bankans.