Velt í farþegaflutningum milli landa með flugi var 29% lægri í maí-júní 2019 en á sama tímabili 2018, að því fram kemur í nýjum tölu Hagstofunnar um virðisaukaskattskylda veltu í maí og júní 2019. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í flugi var velta í öðrum einkennandi greinum ferðaþjónustu nánast óbreytt milli ára, en lækkunin var einungis 0,2% frá maí-júní 2018 til sama tímabils 2019.

Velta í gistiþjónustu var svo til óbreytt milli ára (+0,1%), einnig velta í veitingarekstri (-0,2%). Smávægileg aukning (2,0%) var í veltu bílaleigubíla. Velta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda breyttist lítið í heild ( 0,1%). Hjá ferðaskrifstofum sem selja ferðir erlendis minnkaði velta um 10,7% en hjá ferðaskrifstofum sem selja ferðir á Íslandi jókst velta um 2,0%.

Velta jókst mest í sjávarútvegi og tengdum greinum. Velta í sjávarútvegi var 11,4% meiri í maí-júní 2019 en á sama tímabili árið áður. Á sama tíma jókst velta í heild- og umboðsverslun með fisk um 13,6%.

Velta í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð jókst um 0,8% sem er mun minni aukning en undanfarin ár. Fleiri merki eru um að hægt hafi nokkuð á hjólum hagkerfisins. Velta í sölu og viðhaldi vélknúinna ökutækja dróst saman um 15% í maí-júní frá sama tímabili í fyrra. Þá dróst velta í flutningum og geymslu saman um nær 20% milli sömu tímabila.