Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,27% í janúar frá mánuðinum á undan, samkvæmt frétt Hagstofunnar. Greiningardeildir Landsbankans og Íslandsbanka höfðu spáð óbreyttri neysluverðsvísitölu milli mánaða og greiningardeild Arion banka hafði spáð 0,1% lækkun vísitölu neysluverðs. Hækkunin er því á skjön við væntingar greiningardeildanna. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,21% frá desember í fyrra.

Meðal þeirra þátta sem nefndir eru sem áhrifavaldar til hækkunar á neysluverðsvísitölunni er að verð á tóbaki hækkaði um 17,9%, verð á opinberri þjónustu hækkaði um 2,6% og verð á nýjum bílum hækkaði um 2,9%. Á móti koma útsöluáhrif á verð á götum og skóm og þá lækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,4%.

Tólf mánaða verðbólga er núna 4,2%, sem er óbreytt tala frá því í desember í fyrra. Verðbólga án húsnæðis er 5,0%, en undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,6%, sem jafngildir 2,6% verðbólgu á ári.