Stýrivextir haldast óbreyttir á evrusvæðinu en tilkynnt var um vaxtaákvörðun Seðlabanka Evrópu í dag. Stýrivextir á evrusvæðinu eru, og verða áfram 4%.

Í ákvörðun bankans kemur fram að vaxandi áhyggjur af aukinni verðbólgu gefa ekki tilefni til lækkunar stýrivaxta nú eins og margir fjárfestar höfðu vonast til að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans sagði við fjölmiðla í dag að helsta markmið bankans nú væri að halda verðbólgu í skefjum en verðbólga á evrusvæðinu í mars var3,5%. Verðbólgumarkmið bankans er 2%.

Gert er ráð fyrir því að evran haldi áfram að styrkjast gegn bæði Bandaríkjadal og breska pundinu en stýrivextir í báðum löndum hafa lækkað, nú síðast í dag þegar Englandsbanki lækkaði stýrivexti úr 5,25% í 5%.

Þá greinir BBC frá því að sérfræðingar telji að stýrivextir á evrusvæðinu komi ekki til með að lækka á næstunni.