Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í 0,25% á evrusvæðinu í dag. Öðrum vöxtum var sömuleiðis haldið óbreyttum. Þetta er í samræmi við stýrivaxtaspár, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar .

Vextirnir voru lækkaðir úr 0,5% í nóvember 2013 í 0,25% og hafa aldrei verið lægri frá því að evran var tekin upp 1. janúar 1999.

Stýrivöxtum var sömuleiðis haldið óbreyttum í 0,5% í Bretlandi í dag.

Bloomberg segir í umfjöllun sinni um vaxtaákvörðunardaginn hjá evrópska seðlabankanum að fylgst sé grannt með verðbólguþróun en Lág verðbólga veldur bankanum áhyggjum.

Verðbólga hafi verið undir 1% síðan í október í fyrra og mældist 0,7% í apríl sem þó var 0,2 prósentustigum meira en í mars. Verðbólgumarkmið seðlabankans er um 2%.